Starfsmannastefna Landlæknisembættisins

Starfsmannastefna Landlæknisembættisins

Inngangur
Starfsmannastefna Landlæknisembættisins byggir að hluta til á skráðum lögum, reglum og samningum um tengsl starfsmanna og vinnustaðar, s.s. lögum um heilbrigðisþjónustu, reglugerð um Landlæknisembættið, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulögum, jafnréttislögum, lögum um kjarasamninga og kjarasamningum og á öryggishandbók embættisins. Jafnframt mótast starfsmannastefnan af þeim gagnkvæmu væntingum sem embættið gerir til starfsmanna sinna og starfsmennirnir gera til embættisins sem vinnustaðar.

Markmið
Markmið starfsmannastefnu Landlæknisembættisins er að stuðla að því að embættið gegni hlutverki sínu, s.s. kveðið er á um í 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97 frá 1990 og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til embættisins og starfsmanna þess. Til þess að svo megi verða þarf Landlæknisembættið að hafa á að skipa hæfu og áhugasömu starfsfólki sem helgar starfskrafta sína embættinu og þeirri þjónustu-, ráðgjafar-, þróunar-, rannsóknar- og fræðslustarfsemi sem þar fer fram og bregst við síbreytilegum þörfum landsmanna og þjóðfélags.

Starfsmannastefnunni er ætlað að vera til hvatningar og upplýsingar fyrir alla starfsmenn embættisins. Hún lýsir vilja embættisins til að vera góður vinnustaður þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki í anda jafnræðis. Starfsmannastefnunni er ætlað að tryggja starfsmönnum sem best starfsskilyrði og möguleika til að þroskast í starfi.

Lögð er áhersla á að ráða til starfa hæfasta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni.
Gildandi kjarasamningum er fylgt og ákvæði þeirra túlkuð með hliðsjón af hagsmunum embættisins og starfsfólksins.
Leitast er við að gefa starfsfólki tækifæri á starfsþróun með markvissri fræðslu og þjálfun.
Samskipti starfsfólks innan embættisins og utan skulu grundvallast á siðfágun, trúnaði og virðingu fyrir tilvist og skoðunum annarra.
Leitast er við að upplýsingastreymi sé markvisst og að starfsfólk þekki réttar boðleiðir.
Stuðlað er að því að umhverfi og aðstæður tryggi öryggi og vellíðan starfsfólks við vinnu.
Jafnrétti er virt.
Starfsfólk skal sinna störfum sínum af heiðarleika, vandvirkni og ábyrgð.
Leiðir

Lögð er áhersla á að ráða til starfa hæfasta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni.
Ákvörðun um ráðningu starfsmanna skal vera rökstudd og þeim lögum og reglum fylgt sem þar um gilda. Ráðning til reynslu er æskileg þar sem því verður við komið. Reynslutíminn skal miðast við 6 mánuði. Þessi tími gefur báðum aðilum tækifæri til að meta hvort starfið henti starfsmanni til frambúðar og er lögð áhersla á að reynslutíminn sé vel nýttur til að meta það.

Það er markmið Landlæknisembættisins að ráða ávallt sem hæfasta starfsmenn. Til að tryggja ofangreint markmið fer embættið eftir reglum fjármálaráðuneytisins varðandi auglýsingar um störf. Við ráðningu er byggt á hæfileikum, reynslu og menntun viðkomandi og hæfni hans til að inna starfið vel af hendi. Gengið skal frá öllum ráðningum með formlegum hætti og með ráðningarsamningi.

Gildandi kjarasamningum er fylgt og ákvæði þeirra túlkuð með hliðsjón af hagsmunum embættisins og starfsfólksins.
Yfirmenn leggja áherslu á að veita greinargóðar upplýsingar um kjaramál til starfsmanna. Farið er eftir kjarasamningum við ákvörðun um röðun í launaflokka og við meðhöndlun mála er varða kjara- og launamál.

Landlæknisembættið leggur áherslu á að starfsmenn séu stundvísir og við störf á þeim tíma sem samið hefur verið um og fram kemur í ráðningar- og/eða kjarasamningi. Yfirmanni ber að fylgjast með mætingum, fjarveru á vinnutíma og brotthvarfi af vinnustað áður en reglulegum vinnudegi lýkur, kanna ástæður fyrir slíku og lagfæra.

Landlæknisembættið leitast við að skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma þær skyldur sem starfið og fjölskyldan leggja þeim á herðar. Reynt skal að gefa starfsmönnum kost á tímabundinni lækkun á starfshlutfalli og sveigjanlegum vinnutíma vegna fjölskylduábyrgðar, eins og t.d. umönnunar barna eða sjúkra aðstandenda, eftir því sem kjarasamningar og aðstæður leyfa og án þess að það hafi áhrif á starfsframa þeirra.

Leitast er við að gefa starfsfólki tækifæri á starfsþróun með markvissri fræðslu og þjálfun.
Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þeirra, svo sem vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar, og vera reiðubúnir til að þjálfa sig til nýrra og/eða breyttra verkefna. Áætlun um þjálfun og menntun skal rædd í árlegum starfsmannaviðtölum og taka skal tillit til sí- og endurmenntunar við frammistöðumat.
Starfsmannasamtöl fara fram einu sinni á ári og eru á ábyrgð yfirmanna. Markmið með starfsmannasamtölum er að skapa jákvæð samskipti á milli starfsmanns og yfirmanns þar sem starfsmaðurinn er gerður meðvitaður um stefnu og markmið embættisins og gefinn kostur á að þróast jafnt í starfi og sem einstaklingur. Jafnframt eru starfsmannasamtöl vettvangur þar sem starfsmönnum gefst tækifæri á að koma skoðunum sínum og hugmyndum varðandi starf og starfsumhverfi á framfæri. Telji starfsmaður að ábendingar, sem hann hefur komið á framfæri við næsta yfirmann sinn, hafi ekki að hans dómi fengið viðhlítandi úrlausn, er honum heimilt að snúa sér til annarra yfirmanna með málið til skoðunar og úrlausnar.

Landlæknisembættið vill skapa starfsmönnum möguleika á samfelldum starfsferli. Það er gert með því að hvetja starfsmenn til að auka frumkvæði sitt og hæfni til að takast á við ný verkefni og flytjast á milli starfa. Embættið leitast ávallt við að veita eigin starfsfólki sömu möguleika og utanaðkomandi við ráðningar í störf.

Samskipti starfsfólks innan embættisins og utan skulu grundvallast á siðfágun, trúnaði og virðingu fyrir tilvist og skoðunum annarra.
Embættið vill stuðla að góðum starfsanda þar sem ríkir traust, trúnaður og hreinskilni milli allra starfsmanna. Starfsmenn skulu temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu. Lögð er áhersla á virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót í samskiptum manna í milli. Ummæli, tjáning eða atferli sem truflar aðra, ögrar þeim eða ógnar, eða veldur öðrum óþægindum, verða ekki umborin. Litið verður á slíka hegðun (s.s. kynferðislega áreitni og einelti) sem alvarlegt brot. Fyllsta trúnaðar er gætt varðandi persónuleg og viðkvæm mál starfsmanna.

Starfsmenn vinna saman að því að skapa starfsumhverfi þar sem siðfágun er í hávegum höfð. Starfsmönnum ber að hafa í heiðri algjöran trúnað í samskiptum sínum við skjólstæðinga og samstarfsfólk og virða lög um réttindi sjúklinga, persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Starfsmenn skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu strax við ráðningu og helst sú trúnaðarskylda þótt starfsmaður láti af starfi.

Leitast er við að upplýsingastreymi sé markvisst og að starfsfólk þekki réttar boðleiðir.
Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti sem m.a. felast í jákvæðu viðhorfi til samstarfsmanna og virku upplýsingastreymi. Þeir skulu jafnan leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um þau málefni vinnustaðarins er þá varða og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þau. Ákvörðunarvald og ábyrgð stjórnenda gagnvart starfsmönnum skulu vera vel skilgreind og starfsmönnum ljós. Undir öllum venjulegum aðstæðum ber að fara eftir hefðbundnum leiðum í boðum og ákvörðunum milli aðila. Formlegt skipurit á þó ekki að hindra boðmiðlun.

Upplýsingar um starfsemi, skipulag og markmið embættisins skulu vera starfsfólki aðgengilegar. Sama gildir um ýmis málefni er varða réttindi þeirra og skyldur. Embættið leggur kapp á markvissa upplýsingagjöf til starfsmanna með reglubundnum innanhússfundum, miðlun á tölvusvæði, í öryggishandbók og með skilvirkri notkun upplýsingatöflu.

Landlæknisembættið leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og að þeim líði vel í starfi frá byrjun. Nýir starfsmenn skulu fræddir bæði um almenna starfsemi embættisins og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfsviði þeirra og um réttindi þeirra og skyldur. Næsti yfirmaður er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt slík fræðsla. Starfsmannastefnan skal kynnt fyrir öllum nýjum starfsmönnum.

Stuðlað er að því að umhverfi og aðstæður tryggi öryggi og vellíðan starfsfólks við vinnu.
Embættið telur það vera gagnkvæma hagsmuni að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft að leiðarljósi. Stefnt er að því að efla heilbrigði og starfsgetu starfsmanna með því að hafa áhrif á vinnuumhverfi og þekkingu þeirra þannig að þeir geti sinnt starfi sínu sem best. Málefni sem snerta heilsu, öryggi og vinnuumhverfi er sameiginlegt verkefni allra starfsmanna embættisins.

Embættið leitast við að tryggja öllum starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvistfræði og er í samræmi við lög og reglugerðir um öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Jafnframt ber starfsmönnum, og þeim gert það kleift, að fylgja þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar um öryggi og gætni í starfi. Afbrigði og frávik skulu skráð samkvæmt leiðbeiningum í öryggishandbók.

Leitast er við að tryggja öryggi starfsmanna með forvörnum gegn óhöppum og álagseinkennum. Ennfremur skal þess gætt út frá sjónarmiði vinnuverndar að yfirvinnu sé haldið innan hóflegra marka.

Starfsmenn eru hvattir til að efla eigin vellíðan sem og samstarfsmanna sinna. Starfsmenn fá stuðning og hvatningu til að leggja rækt við eigin heilsu og ástunda heilbrigt líferni. Leitast er við að hafa aðgengilega ráðgjöf og fræðslu um vinnuvernd og heilsueflingu. Embættið styrkir starfsmenn við ástundun líkamsræktar. Embættið vill efla samvinnu og samneyti starfsmanna, t.d. með því að stuðla að sameiginlegum og fjölskylduvænum viðburðum af ýmsum toga í samvinnu við starfsmannafélag embættisins.

Landlæknisembættið er reyklaus og vímuefnalaus vinnustaður. Embættið veitir starfsmönnum leiðbeiningar og aðstoð til að vinna úr vandamálum sem tengjast misnotkun vímuefna. Reynist meðferð á stofnun vera nauðsynleg til þess að bregðast við vandanum á starfsmaður rétt á veikindaleyfi vegna fyrstu dvalar sinnar á meðferðarstofnun. Verði áfram til staðar vandi á þessu sviði hjá viðkomandi starfsmanni, í þeim mæli að það komi niður á vinnu hans, skal honum gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Beri slíkt ekki árangur skal hann leystur frá störfum.

Jafnrétti er virt.
Innan Landlæknisembættisins er gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynhneigð, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðun, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Gildir þetta m.a. fyrir:

ráðningu, setningu og skipun í starf
laun og aðra þóknun fyrir vinnu
stöðuhækkun og stöðubreytingar
uppsögn úr starfi
vinnuaðstæður og vinnuskilyrði
veitingu hvers konar hlunninda.

Starfsfólk skal sinna störfum sínum af heiðarleika, vandvirkni og ábyrgð.
Allir starfsmenn skulu sinna störfum sínum af heiðarleika, trúmennsku og vandvirkni. Starfsmönnum ber að fylgja þeim vinnuferlum sem tilgreind eru í öryggishandbók og hlíta lögmætum og eðlilegum fyrirmælum stjórnenda. Þá skulu þeir leitast við að sjá til þess að verkefni, sem þeim eru falin, séu unnin áfram ef upp koma forföll eða aðrar ástæður sem raska störfum.

Telji starfsmaður að uppi sé árekstur á milli reglna sem um starf hans gilda og þeirra fyrirmæla sem hann hefur fengið um starf sitt skal hann tafarlaust tilkynna stjórnanda um það. Leiði slík tilkynning ekki til viðbragða skal hann koma málinu á framfæri við landlækni.

Starfsmenn þurfa að gæta að þeirri ábyrgð og ímynd sem þeir kunna að skapa með framkomu sinni jafnt í vinnutíma sem utan. Starfsmönnum ber því að gæta þess að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu sem þeir gegna. Ætlast er til þess að starfsmenn séu snyrtilegir til fara við vinnu sína.

Endurskoðun
Starfsmannastefnan skal endurskoðuð árlega og er sú endurskoðun á ábyrgð framkvæmdastjórnar.

Samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar Landlæknisembættisins 13. maí 2002.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AriJosepsson

Höfundur

Ari Jósepsson
Ari Jósepsson

Hæ ég heiti  Ari Josepsson og er með Video maninu

Videoin min eru á youtube og ég er með mörg járn í eldinnum :)

Ég er landkönnuður og Leikari og svo má telja meira upp.

Búinn að ferðast um allar álfur heims og til margra landa og hef mikinn áhuga á landa fræði.

Alltaf haft gaman af landi og þjóð.

Elska Ísland og er búinn að læra það hvað við Íslendingar höfum það gott.

Miðað við önnur lönd.

Svo er ég bara ógeðslega skemtilegur :)

Áhugavert

Ný leitarstöð

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...9ari_963990
  • ...9ari_842947
  • ...star_842946
  • Miami
  • Ég elska hunda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband